Site hosted by Angelfire.com: Build your free website today!
Sótt um í læknisfræði í Danmörku.
Umsóknarferlið í skóla í Damörku er hörkupúl og oft mjög erfitt fyrir námsmenn að sækja um og nálgast upplýsingar. Þessi stutti pistill er ætlaður til þess að auðvelda öllum þeim sem ætla að sækja um nám í Damörku og þá sérstaklega þeim sem ætla að sækja um í læknisfræði. Læknisfræði er kennd í þremur skólum í Damörku, háskólanum í Aarhus, Kaupmannahöfn og Odense. Hér fyrir neðan fylgir greinargóð lýsing á því sem ég gekk í gegnum þegar ég sótti um fyrir ári síðan, það er líklegt að einhver atriði hafið gleymst þannig að vinsamlegast hafið það í huga.

Til þess að sækja um háskólanám í Danmörku þarf að fylla út umsókn sem heitir KOT (den koordinerede tilmelding). Umsóknin kemur út hvert ár 1. febrúar og umsóknarfresturinn er til 15. mars. Athugið að það er tekið mjög strangt á þessum fresti þannig að best er að senda umsóknina sem fyrst. Ef sent sé í pósti verður að gera ráð fyrir nokkrum virkum dögum fyrir umsóknina að komast til skila. Einnig er hægt að sækja um á netinu á heimasíðunni www.optagelse.dk(gamla heimasíðan var www.kot.dk) undir hlekknum: "ansøger til videregående uddannelse". Svar við umsóknum koma í lok júlí.

Ég mæli með því að fólk hafi samband við Alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands þar sem hægt er að nálgast KOT-umsóknina og leita ráðgjafar um hvernig hún skuli vera fyllt út. Umsóknin er eins og lítil bók sem inniheldur leiðbeiningar um hvernig skal fylla út hvern reit á eyðublöðunum sem eru síðan einfaldlega rifin úr bókinni og send í pósti til viðkomandi skóla. Póstföngin eru einnig í í leiðbeiningunum. Starfsfólkið hjá Alþjóðaskrifstofunni eru líka búin að gera stuttar leiðbeiningar á íslensku til að auðvelda fólki að skilja leiðbeiningarnar sem eru á dönsku, munið að spyrja um þær.

Hægt er að sækja um tvo svokallaða kvóta í umsókninni. Kvóta 1 og kvóta 2. Ef þú er með góða meðaleinkunn getur þú sótt um kvóta 1 annars er öruggara að sækja um kvóta 2. Meðaleinkunnin 8,5 úr íslensku stúdentsprófi er u.þ.b. 9,7 á dönskum kvarða og oftast er talað um lágmarksmeðaleinkunn upp á 9,3 á dönskum kvarða til að geta komist inn á kvóta 1. Þessar upplýsingar eru því miður ekki mjög áreiðanlegar þannig að vinsamlegast takið þær með fyrivara.

Með kvóta 2 umsókninni verður að fylgja með ýmiss konar upplýsingar. Þar á meðal er stúdentspróf þýtt yfir á dönsku (eða ensku en það er samt betra að hafa það á dönsku). Umsóknin byggist á punktum sem gefnir eru samkvæmt vissu kerfi. Maður fær punkta fyrir meðaleinkunn, starfsreynslu, aðra menntun og íþróttastarfsemi o.s.frv. Meðaleinkuninn er mikilvægust í þessu samhengi og einnig eru gerðar vissar kröfur í vissum raunvísindagreinum (í mínu tilfelli var krafist vissrar lágmarks-einkunnar í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði). Ef lágmarkspunktafjölda er ekki náð þegar búið er að fara yfir umsóknina er henni hafnað. Athugið vel að það er tekið tillit til starfsreynslu og fleira sem gæti allt bætt við punktum í umsóknina þína og þannig aukið líkurnar að þú komist inn. Þetta þýðir að til þess að reyna fá sem flesta punkta þarf að skrifa niður í umsóknina nánast allt sem þið hafið gert ykkar ævi, takið allt til greina því að þið vitið aldrei hvað gæti talist sem punktur. T.d. er mögulegt að fá punkt fyrir að hafa þjálfað 7.flokk í fótbolta eitt sumar fyrir 5 árum þannig að setjið allt sem þið getið ímyndað ykkur í umsóknina.

Það er skylda hjá sumum skólum að skrifa stutta grein um sjálfan sig (skema) þar sem greinargóð lýsing á sjálfum sér þarf að koma fram. Þar má nefna perónuleika og útskýring af hverju þér langar í þennan skóla. Hér þarf að koma fram allar þessar viðbótarupplýsingar s.s. starfsreynsla og íþróttaþjálfun. Þótt það sé ekki skylda að skrifa svona lýsingu í þeim skóla sem þið sækjið um mæli ég samt með því. Best er að hafa hana á dönsku en það er hægt að skrifa hana á ensku.

En athuga skal vel að allt sem þið takið fram í umsókninni þarf að fylgja formleg staðfesting svo að það sé tekið gilt. Þessar staðfestingar þurfa að vera eins góðar og hægt er og allt þarf að vera undirritað (og stimplað ef hægt er) af réttum aðila svo að sé hægt að taka þetta sem gilt. Svona staðfestingar eru oftast yfirlýsing frá hverjum aðlila fyrir sig þar sem er viðurkennt allt sem þú settir í umsóknina og með undirskrift. Ef önnur menntun er til staðar en stúdentspróf er gott að láta hana fylgja með.

Starfsreynsla er einnig metin í umsókninni og hér þarf að fylgja mjög nákvæm lýsing á öllum þeim störfum sem tekin eru fram. Þá er ég að tala um nákvæma lýsingu á starfinu og í hverju það felst í, á hvaða tímabili, staðfesting frá vinnuveitanda og áætlaðan heildartímafjölda. Já ég er ekki að grínast með tímafjöldann, ég lenti t.d. í því að reikna út tímafjölda úr sumarvinnum síðustu ára og oft var það erfitt þegar maður var kominn kannski 5 ár aftur í tímann.

Ég er ekki viss um hvort meðmæli séu tekinn til greina sem punktar en ég mæli samt eindregið með því að láta eins mörg meðmæli fylgja með og hægt er. Hér gildir það sama og áður, reynið að hafa samband við alla þá sem þið getið hugsað ykkur um sem gætu gefið ykkur meðmæli. Hér má t.d. nefna fyrrverandi vinnuveitendur, þjálfara og kennara. Athugið að þetta ferli gæti tekið mjög langan tíma þar sem oft er erfitt að finna sumt fólk og einnig er sumir lengur að taka við sér en aðrir. Stundum er fólk upp í mánuð að svara manni og gefa meðmæli. Þess vegna mæli ég eindregið með því að byrja sem fyrst að safna saman öllum þessum upplýsingum sem gæti hjálpað umsókninni því að tímafresturinn rennur út 15.mars, m.ö.o. ekki bíða til 1. febrúar til að gera þetta allt saman. Ekki láta hlutina bíða til morgundagsins, byrjið á þeim sem fyrst svo að þið lendið ekki í tímaþröng.

Óskar Valdórsson - Árósum.

UMSÓKNARFERLIÐ:
Félag Íslenskra læknanema i Danmörku